Innlent

Ekki sammála heimsendaspám

Lilja Rafney Magnúsdóttir
Lilja Rafney Magnúsdóttir
„Ég er ekki sammála þeim heimsendaspám sem þarna koma fram,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, spurð um umsagnir SA, LÍÚ og SF annars vegar og Landsbankans hins vegar.

„Það er verið að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækja með því að bjóða upp á langtímasamninga um nýtingu auðlindarinnar,“ segir Lilja. Eins og kerfið virki í dag geti sjávarútvegsfyrirtækin ekki verið viss um að fá heimildir lengra en eitt fiskveiðiár fram í tímann.

„Hvernig menn færa þetta í bókhaldinu breytir ekki öllu heldur raunverulegur rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna og raunveruleg greiðslugeta miðað við innkomu,“ segir Lilja.

Í umsögn Landsbankans kemur fram að aflaheimildir séu í raun undirstaðan undir veðum sjávarútvegsfyrirtækja, þó óbeint sé. „Það er bannað með lögum að veðsetja aflaheimildir, svo fjármálafyrirtækin í landinu hafa verið á mjög gráu svæði. Það verður að horfast í augu við hversu glæfralega var farið í fjárfestingum og við yfirveðsetningu sjávarútvegsfyrirtækja. Þó engu verði breytt í fiskveiðistjórnunarkerfinu verður að afskrifa þar sem ekki var innistæða fyrir því sem lánað var fyrir,“ segir Lilja.

Hún segir fráleitt að gengið sé gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar með því að innkalla aflaheimildir. Lögum samkvæmt sé auðlindin í eigu þjóðarinnar. „Það væri grafalvarlegur hlutur ef auðlindin teldist einkaeign þeirra sem hafa haft afnotaréttinn af aflaheimildunum frá ári til árs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×