Innlent

Bræðrum ruglað saman í 90 ár

Sigdór og Ármann Sjórinn var starfsvettvangur þeirra.Fréttablaðið/Stefán
Sigdór og Ármann Sjórinn var starfsvettvangur þeirra.Fréttablaðið/Stefán
Tvíburabræðurnir Ármann og Sigdór Sigurðssynir eru níræðir í dag. Bræðurnir ólust báðir upp á Norðfirði en kynntust þó ekki fyrr en þeir voru orðnir níu ára. Ástæðan var sú að móðir þeirra lést þegar þeir voru mánaðargamlir og þeir voru teknir í fóstur hvor á sitt heimilið, annar í þorpinu en hinn í sveitinni. Þeir hittust því ekki fyrr en þeir byrjuðu í skóla níu ára gamlir en urðu ekki vinir fyrr en eftir fermingu. Síðan eru þeir óaðskiljanlegir.

Ármann og Sigdór eru eineggja tvíburar og afar líkir útlits enda segja þeir þeim hafa verið ruglað saman alla tíð. Þeir viðurkenna líka að það hafi komið fyrir í annasömum kaupstaðaferðum að annar þeirra hafi mætt á stað í nafni hins og jafnvel skrifað undir skjöl.

Bræðurnir byrjuðu ungir að stunda sjó enda segja þeir að um fátt annað hafi verið að ræða á Norðfirði. Allt stríðið sigldu þeir til dæmis hvor á sínum bátnum.

Bræðurnir fluttu báðir til Hafnarfjarðar árið 1955. Þar hafa þeir átt heima síðan og haldið hvor með sínu Hafnarfjarðarliðinu til að geta verið ósammála um eitthvað, að eigin sögn.

Þeir komu sér samt saman um að halda upp á afmælið í Haukaheimilinu á laugardag.

- gun /




Fleiri fréttir

Sjá meira


×