Innlent

Hafa lækkað um 33% síðan í fyrra

Skólabækur Könnun ASÍ sýnir mikinn verðmun á skólabókum á milli verslana.fréttablaðið/valli
Skólabækur Könnun ASÍ sýnir mikinn verðmun á skólabókum á milli verslana.fréttablaðið/valli
Skólabækur fyrir framhaldsskóla hafa lækkað í verði um allt að 33 prósent milli ára, samkvæmt nýrri verðlagskönnun ASÍ. Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á bókum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 17. ágúst síðastliðinn.

Verð var kannað á 23 algengum kennslubókum sem framhaldsskólanemar þurfa að kaupa. Verð bókanna hækkaði mest hjá Pennanum Eymundsson milli ára en lækkaði á sama tíma hjá Griffli, Office 1 og Iðnú. Verðmunur milli verslana hefur aukist milli ára.

Til að mynda hefur stærðfræðibókin „Stærðfræði 3000“ hækkað um 6 prósent í verði hjá Pennanum Eymundsson, stóð í stað hjá Bóksölu stúdenta, en lækkaði um 14 prósent hjá Office 1.

Mesta hækkun á milli ára var hjá Pennanum Eymundsson sem hefur hækkað verðið á 18 titlum af þeim 23 sem skoðaðir voru, en hækkunin var undir tíu prósentum í flestum tilvikum.

Mesta lækkun á milli ára var hjá Office 1, en þar hafði verðið lækkað á 16 bókatitlunum af 17 sem fáanlegir voru. Lækkunin var oftast á bilinu tíu til tuttugu prósent.

Mesta hækkunin á milli ára var á enskubókinni „Lord of the Flies“ sem hækkaði um 53 prósent hjá Bóksölu stúdenta. Mesta lækkunin á milli ára var á sömu bók hjá Griffli um 33 prósent.

Verð var kannað í Bóksölu stúdenta Hringbraut, Pennanum Eymundsson Kringlunni, Office 1 Skeifunni, Griffli Skeifunni og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×