Erlent

Saksóknari trúir ekki þernunni

Frjáls maður Dominque Strauss-Kahn gengur út úr dómhúsinu í New York ásamt eiginkonu sinni. fréttablaðið/AP
Frjáls maður Dominque Strauss-Kahn gengur út úr dómhúsinu í New York ásamt eiginkonu sinni. fréttablaðið/AP
Dominque Strauss-Kahn, fyrrverandi yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er laus allra mála í New York og gekk frjáls maður út úr dómhúsi í gær.

Dómari felldi niður málið gegn honum, sem höfðað var eftir að hótelþerna sakaði hann um að hafa gert tilraun til að nauðga sér í maí síðastliðnum.

Dómarinn fór þar að ósk saksóknara málsins, sem taldi engan grundvöll fyrir málshöfðun eftir að trúverðugleiki þernunnar hafði verið dreginn í efa. Saksóknarinn hafði upphaflega sagt sterk sönnunargögn liggja fyrir í málinu, en komst síðar að þeirri niðurstöðu að þótt erfðaefnisrannsókn sýni að sæði úr Strauss-Kahn hafi verið á fötum hennar þá sanni það ekki að hann hafi þvingað þernuna til samræðis. Þernan fór fram á að sérstakur saksóknari yrði skipaður í málinu, en því var einnig hafnað af dómara í New York í gær.

Strauss-Kahn var handtekinn vegna málsins þann 14. maí og hafður í viku í fangelsi, en hefur síðan verið í New York með eftirlitsbúnað og þurft að gera grein fyrir sér daglega hjá lögreglu.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×