Sport

Pistill Helgu Margrétar: Er meira alltaf betra?

Helga Margrét Þorsteinsdóttir skrifar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Dugnaður, agi, metnaður, vilji, baráttugleði, samviskusemi og ákveðni. Þessi lýsingarorð finnst mér lýsa því íslenska íþróttafólki sem ég þekki.

Það er gegnumgangandi og jafnvel umtalað utan Íslands hvað íslenskir íþróttamenn eru duglegir og samviskusamir. Þeir eru oft tilbúnir til þess að leggja meira á sig en liðsfélaginn eða andstæðingurinn og gefa sér sjaldan afslátt af æfingum. Þeir kvarta sjaldan og eru kröfuharðir til sjálfs sín. Þeir leggja sig alla fram við æfingar og taka manna mest af alls konar aukaæfingum því að meira er jú alltaf betra, eða hvað?

Síðastliðið haust byrjaði ég að æfa undir stjórn sænsks þjálfara. Til að byrja með og fram á vor var þetta eins konar farþjálfun þar sem við vorum stödd í sitt hvoru landinu.

Ég fékk sent sérsniðið prógramm sem ég átti að fylgja samviskusamlega og það var því á minni ábyrgð að fylgja þessu prógrammi. Áður en þetta samstarf hófst spurði ég sjálfa mig að því hvort ég byggi yfir þeim aga sem nauðsynlegur væri til þess að geta unnið eftir þessu skipulagi.

Ég var ekki lengi að sannfæra sjálfa mig um að svo væri, hingað til hefði ég aldrei á ævinni svikist undan æfingu og hví ætti ég að fara að taka upp á því núna? En því miður skjátlaðist mér. Nú reka ef til vill margir upp stór augu þegar ég segi að ég bjó einfaldlega ekki yfir þeim sjálfsaga sem nauðsynlegur var svo vinnulag sem þetta gengi upp.

Það var ekki það að ég sleppti æfingum eða svikist undan erfiðustu æfingunum. Nei, ég gerði alltaf of mikið. Ég gat ekki neitað mér um að gera alltaf meira.

Ég bætti alltaf við prógrammið, tók morgunæfingar þegar ég átti að hvíla, ég stytti alltaf hvíldirnar á milli spretta og bætti alltaf við einu setti í viðbót. Þetta gerði ég í þeirri trú að meira væri alltaf betra. Þetta er jú það hugarfar sem hefur komið mér þangað sem ég er í dag og ég er stolt af þeim árangri sem ég hef náð en það verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að síðastliðin ár hef ég verið mikið meidd og þetta ár er engin undantekning.

Margir hafa það mottó að það sé ekki æfingin sem skapi meistarann heldur aukaæfingin. Það er vissulega mikið til í því en í þessu eins og öllu öðru er það skynsemin sem skiptir mestu máli. Aukaæfingar ættu alltaf að vera í fullu samráði við þjálfara og með þeirra vitund.

Hingað til hafa mín einkunnarorð verið metnaður, dugnaður og ákveðni. Á því verður engin breyting en ég ætla að passa mig á því að þessir helstu styrkleikar mínir vinni ekki á móti mér. Ég ætla að setja allan minn metnað í að hugsa vel um sjálfa mig og beita þeim mikla sjálfsaga sem ég bý yfir til þess að leyfa skynseminni að eiga síðasta orðið þegar kemur að aukaæfingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×