Innlent

Í dag ræðst hvort kjarasamningar halda

Vilmundur Jósefsson
Vilmundur Jósefsson
Gylfi Arnbjörnsson
Samtök atvinnulífsins taka ákvörðun um það í dag hvort kjarasamningarnir sem skrifað var undir í maí verða látnir gilda til þriggja ára eða einungis fram yfir næstu áramót.

Alþýðusamband Íslands telur ekki ástæðu til að slíta samstarfinu við stjórnvöld.

„Við tökum ekki endanlega ákvörðun fyrr en á morgun [í dag] en það hefur náðst árangur í dag. Hvort það nægir til að við föllumst á þriggja ára samninga kemur í ljós en þetta hefur í það minnsta þokast í áttina,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA. Hann segir koma til greina að halda áfram með samningana að gefnum fyrirvörum en það þurfi þó ekki að vera.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ekki ástæðu til að slíta samstarfinu við stjórnvöld en leggur þó áherslu á að meira verði að gera til að örva hagvöxt og atvinnu.

„Hljóðið í okkur er ágætt. Við funduðum með ríkisstjórninni fyrir helgi og okkur finnst stjórnvöld hafa staðið við sitt þegar kemur að lagasetningu. Hins vegar hefur orðið seinagangur á því að móta og kynna stefnu í ríkisfjármálum og þá aðallega að setja fram hagvaxtar- og fjárfestingaáætlun,“ segir Gylfi og bætir við að gert sé ráð fyrir endurskoðun á kjarasamningunum í janúar á næsta ári og svo aftur árið 2013. Því sé ekki ástæða til að láta ekki til gildistökunnar koma núna.

Samkvæmt samningunum sem ritað var undir í síðasta mánuði þurfa aðilar vinnumarkaðarins að taka ákvörðun í síðasta lagi í dag um hvort samningarnir verði látnir gilda til þriggja ára, eins og stefnt var að, eða hvort þeir gilda einungis fram yfir áramót. Ákvörðun SA ætti að ligga fyrir um miðjan daginn að sögn Vilmundar.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×