Innlent

Skipverji með 4 kíló af amfetamíni

Goðafoss Maðurinn hafði starfað hjá Eimskipi í eitt ár. Hann hefur líklega unnið sinn síðasta vinnudag hjá fyrirtækinu.
Goðafoss Maðurinn hafði starfað hjá Eimskipi í eitt ár. Hann hefur líklega unnið sinn síðasta vinnudag hjá fyrirtækinu.
Skipverji á Goðafossi situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um smygl á fjórum kílóum af amfetamíni til landsins.

Maðurinn er íslenskur og á fertugsaldri. Hann var handtekinn 13. júní síðastliðinn þegar hann ók á bíl sínum frá Sundahöfn, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Fíkniefnin fundust í bíl hans. Fleiri skipverjar munu ekki hafa verið handteknir vegna málsins.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. júlí næstkomandi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Goðafoss siglir til Rotterdam, Árósa, Helsingjaborgar og Fredrikstad. Fréttablaðið hefur ekki upplýsingar um hvar talið er að efnin hafi komið um borð.

Götuvirði efnanna nemur nokkrum tugum milljóna króna að því gefnu að það sé drýgt nokkuð.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir manninn hafa starfað hjá fyrirtækinu í eitt ár.

Hann segir að þegar smyglmál af þessu tagi komi upp vinni fyrirtækið með lögreglu og tollyfirvöldum og að starfsmönnum sem verði uppvísir að smygli sé í öllum tilfellum sagt upp störfum. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×