Innlent

Afnema skilarétt verslana á kjötvöru

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga (KS) hyggst afnema skilarétt verslana á kjötvöru frá fyrirtækinu. Er þetta gert til að bregðast við banni á forverðmerkingum á kjötvöru.

„Með þessum nýju reglum getur búðin alveg stýrt álagningu og þá getur komið fyrir að hún leggi tuttugu prósenta álag á eina vöru og fjörutíu prósenta álag á aðra sambærilega vöru. Þá situr auðvitað varan með fjörutíu prósenta álag eftir og henni er skilað án þess að við höfum nokkuð um það að segja,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS.

Samkeppniseftirlitið hefur sagt nýju reglurnar skapa grundvöll fyrir virkari verðsamkeppni milli verslana, sem ætti til lengri tíma að leiða til lægra verðs. Ágúst segir eina möguleikann á því að verð lækki vera þann að verslanir taki fulla ábyrgð á þeim vörum sem þær kaupi inn þannig að þær sjái sér meiri hag í því að lækka verð á vörunni þegar hún nálgist síðasta söludag.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, og Bjarni Friðrik Jóhannesson, rekstrarstjóri Nóatúns, segja báðir að breytingin hafi lítil áhrif á sínar verslanir. Fæstar þeirra kjötvara sem þær selji hafi skilarétt.

Hjá Norðlenska og Sláturfélagi Suðurlands eru engar áætlanir uppi um afnám skilaréttar, samkvæmt frétt Bændablaðsins um málið.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×