Innlent

Nefndin vill fjölbreyttari óverðtryggð lán

Lánamál Nefnd sem fjallaði um framtíð verðtryggingarinnar klofnaði í afstöðu sinni.Fréttablaðið/vilhelm
Lánamál Nefnd sem fjallaði um framtíð verðtryggingarinnar klofnaði í afstöðu sinni.Fréttablaðið/vilhelm
Tryggja ætti fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum til móts við þau verðtryggðu til að draga úr vægi verðtryggingar hér á landi. Þetta er niðurstaða nefndar um verðtryggingu sem skilaði í gær skýrslu til efnahags- og viðskiptaráðherra.

Í þessu augnamiði leggur nefndin til að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð lán. Í skýrslunni kemur fram að óvarlegt sé að leggja blátt bann við notkun verðtryggingar. Ef stjórnvöld vilji banna verðtryggingu á húsnæðislánum verði sú breyting ekki afturvirk og hafi ekki áhrif á gerða samninga.

Í skýrslunni segir að verðtryggingin sé í raun birtingarmynd vandans. Vandinn sé í raun verðbólgan. Afar illa hafi gengið að halda henni í skefjum hér á landi.

Nefndarmenn voru ekki sammála um möguleika á afnámi verðtryggingar án þess að auka óstöðugleika. Fulltrúar Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar, auk Lilju Mósesdóttur vildu afnema verðtrygginguna í skrefum.

Fulltrúi Samfylkingarinnar vill stefna að inngöngu í Evrópusambandið og að upptöku evru til að vextir og verðbólga færist nær því sem gerist í sambandinu.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki afnám verðtryggingar á þessari stundu þar sem byggja verði upp peningalegar eignir hér á landi með því að hvetja til sparnaðar.

Hann lagði þó áherslu á að fráleitt væri að vera í raun með tvær myntir, verðtryggða og óverðtryggða krónu, í ekki stærra landi.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×