Innlent

Finnar styðja björgunarsjóð ESB

Styrkir evruna Framkvæmdastjórn ESB fagnaði í gær ákvörðun Finna, og sagði hana verða til þess að tryggja fjárhagslegan stöðugleika í Evrópu og Finnlandi. nordicphotos/getty
Styrkir evruna Framkvæmdastjórn ESB fagnaði í gær ákvörðun Finna, og sagði hana verða til þess að tryggja fjárhagslegan stöðugleika í Evrópu og Finnlandi. nordicphotos/getty
Nú er líklegt orðið að Finnar styðji aðgerðir ESB um að veita portúgölskum stjórnvöldum lán til að bregðast við fjárhagsvandræðum sínum. Þrír af fjórum stærstu flokkum Finna eru orðnir ásáttir um að taka þátt í því.

Svokallaðir Sannir Finnar, flokkur efasemdamanna um Evrópusambandið, tilkynntu í gær að þeir hefðu dregið sig út úr stjórnarmyndunarviðræðum vegna þessa. Sönnum Finnum skaut upp á stjörnuhimininn í þingkosningunum í síðasta mánuði og urðu óvænt þriðji stærsti flokkurinn.

Jyrki Katainen, væntanlegur forsætisráðherra Finna úr Samstöðuflokki, segir að samkomulagið um stuðninginn feli í sér að Portúgölum verði sett strangari skilyrði fyrir lánveitingunni.

„Sem ábyrg Evrópuþjóð vinnum við saman í þessari kreppu," segir hann.

Neyðarláninu, upp á 78 milljarða evra, hefur þegar verið heitið Portúgölum af ESB og AGS, en öll sautján evrulöndin hafa neitunarvald yfir aðgerðunum, þar á meðal Finnar.

Timo Suoini, leiðtogi Sannra Finna, er ósáttur við framvinduna.

„Það hefði verið gaman að vera í ríkisstjórn. Þetta var erfið ákvörðun," segir hann. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×