Erlent

Lögreglan komin á sporið í morðmáli

Lýst eftir manni Lögreglan á Fjóni lýsir eftir manni sem gæti gefið mikilvægar upplýsingar um morð á miðaldra hjónum í síðasta mánuði. 
NordicPhotos/Getty
Lýst eftir manni Lögreglan á Fjóni lýsir eftir manni sem gæti gefið mikilvægar upplýsingar um morð á miðaldra hjónum í síðasta mánuði. NordicPhotos/Getty
Lögreglan á Fjóni gæti verið komin á sporið með að leysa dularfullt morðmál sem hefur vakið mikla athygli um alla Danmörku. Lýst hefur verið eftir manni og hafa þegar borist fjölmargar ábendingar.

Hjónin Bjarne Johannessen og Heidi Nielsen voru skotin til bana á kvöldgöngu í skógi við Óðinsvé hinn 13. apríl síðastliðinn og hefur lögreglu lítt miðað í rannsókn sinni fram að þessu.

Fyrir nokkru fannst þó veski sem stolið hafði verið af Johannessen eftir morðin við húsnæði júdófélags skammt frá vettvangi glæpsins.

Sama kvöld og morðin áttu sér stað sást grunsamlegur maður við júdóklúbbinn, en hann sást einnig á upptökum úr öryggismyndavélum við sundlaug sama kvöld. Sundlaugin er einmitt miðja vegu milli morðvettvangsins og júdóklúbbsins.

Maðurinn sem lýst er eftir er um þrítugt og var með kringlótt gleraugu og ljósbrúnt kaskeiti. Lögregla leggur áherslu á að maðurinn sé ekki grunaður um morðin, en hún vilji þó ná tali af honum út af málinu.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×