Innlent

Undirstrika hinn evrópska anda

Timo summa Sendiherra ESB á Íslandi flutti tölu á Evrópudeginum sem haldinn var hátíðlegur í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Fréttablaðið/Stefán
Timo summa Sendiherra ESB á Íslandi flutti tölu á Evrópudeginum sem haldinn var hátíðlegur í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Fréttablaðið/Stefán
Evrópudagurinn var haldinn hátíðlegur í gær og hélt sendinefnd Evrópusambandsins (ESB) meðal annars hóf í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni dagsins.

Evrópudagurinn er haldinn ár hvert til að minnast þess að hinn 9. maí árið 1950 markaði Robert Schuman, utanríkisráðherra Frakklands og einn af frumkvöðlum Evrópusamstarfs, upphaf þess sameiningarferlis sem síðar gat af sér ESB eins og við þekkjum það nú.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, að dagurinn væri táknmynd um evrópskan samruna og samvinnu.

„Þjóðríkin hafa sinn dag, en þetta er dagur Evrópu þegar við fögnum og hömpum evrópskri menningu. Þannig undirstrikum við hinn evrópska anda.“ Summa bætti þvi við aðspurður að Evrópudagurinn og athöfnin í gær tengdist ekki aðildarviðræðum Íslendinga við ESB.

Summa sagði að íslensk menning hefði einnig verið í forgrunni á athöfninni þar sem barnakór hefði sungið íslensk lög, meðal annars.

„En það er auðvitað líka hluti af evrópskri menningu.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×