Innlent

Dómurinn telur ákæruna vera skýra

Krafa Ekki er hægt að kæra niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Aðalmeðferð í málinu er áformuð í haust.Fréttablaðið/Stefán
Krafa Ekki er hægt að kæra niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Aðalmeðferð í málinu er áformuð í haust.Fréttablaðið/Stefán
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði í gær frávísunarkröfu verjenda í skattahluta Baugsmálsins. Dómarinn taldi ákæru í málinu ekki svo óskýra að ákærðu gætu ekki varið sig.

Í málinu eru þrír einstaklingar ákærðir fyrir skattalagabrot, persónulega og í rekstri fyrirtækja. Ákærðu eru þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Kristín Jóhannesdóttir og Tryggvi Jónsson.

Verjendur töldu ákæru svo óskýra að ekki væri hægt að átta sig á ákæruatriðunum. Vísuðu þeir einkum til þess að ekki væri sundurliðað hvaða skattar og gjöld hafi ekki verið greidd á því tímabili sem ákært er vegna.

Við málflutning um frávísunarkröfuna hafnaði settur ríkislögreglustjóri í málinu þeim málatilbúnaði og sagði ákæruna í fullu samræmi við lög og venjur í slíkum sakamálum. Á það féllst dómarinn í úrskurði sínum.

Verjendur vísuðu til dóms sem féll í fyrri hluta Baugsmálsins árið 2005. Þar var málinu vísað frá dómi þar sem Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara þótti ekki mega lesa sakagiftir úr ákæru. Pétur er einnig dómari í þeim hluta Baugsmálsins sem nú er fyrir dómi.

Ekki er hægt að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Næsta skref er því aðalmeðferð, sem áformað er að fari fram í haust.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×