Innlent

Fasteignaviðskipti glæðast

Fasteignamarkaðurinn er að taka við sér og mikið um að fyrstu kaupendur sé að koma út á markaðinn. Þetta er mat Grétars Jónssonar, framkvæmdastjóra Félags fasteignasala. „Eftirspurn eftir húsnæði er mun meiri en áður og alveg ljóst að markaðurinn er að taka við sér,“ segir Grétar.

Þinglýstum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr 668 í 1.115, eða um tæp 70 prósent, milli áranna 2010 og 2011, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands.

Borið er saman tímabilið frá 1. janúar til 14. apríl. Verðmæti kaupsamninga á þessu tímabili í ár er rúmir 34 milljarðar króna en var rúmir 19 milljarðar í fyrra.

Árið 2008 var þinglýst 1.267 kaupsamningum á sama tímabili og var verðmæti þeirra um 45,5 milljarðar króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hefur orðið veruleg aukning í umsóknum einstaklinga undanfarna mánuði. Útlán til þeirra hafa aukist um helming á milli ára, eða um 2 milljarða króna. Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir þó lítils háttar samdrátt vera í útlánum yfir heildina.

„Útlán til leigufélaga hafa dregist saman um 79,2 prósent, eða um 24 milljarða, miðað við sama tíma í fyrra,“ segir Sigurður.

Hann segir útlán Íbúðalánasjóðs hafa dregist saman um 400 milljónir, eða um 6,5 prósent, á tímabilinu frá ársbyrjun til 13. apríl.

„Þetta tók tíma en einstaklingsmarkaðurinn er að taka við sér,“ segir Sigurður og bætir við að fólk sem hafi fengið greiðsluaðlögun vegna 110 prósent lána sé að koma aftur út á markaðinn.

Spár um lækkandi verð fasteigna hafa ekki gengið eftir en verð á fasteignum hefur nær staðið í stað síðustu tólf mánuði. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×