Innlent

Réttur almennings aukinn

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Lagt hefur verið fram lagafrumvarp á Alþingi um aukinn rétt almennings til þess að fá upplýsingar í umhverfismálum. Tilefnið eru viðbrögð stjórnsýslunnar og vandkvæði sem urðu innan hennar þegar upp kom díoxínmengun í nokkrum sorpbrennslustöðvum á Íslandi. Þá varð ljóst að styrkja þyrfti rétt almennings til upplýsinga og herða á frumkvæðisskyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar og vernda almenning.

Flutningsmenn frumvarpsins eru Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Skúli Helgason og Ólafur Þór Gunnarsson.

Í kjölfar frétta um mikla díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa ákvað umhverfisnefnd Alþingis að skoða nánar þá löggjöf um umhverfismál og upplýsingaskyldu stjórnvalda er snýr að mengunarmálum.

Niðurstaðan varð sú að kveða þurfi skýrar á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana í íslenskri löggjöf og um rétt almennings til þess að vernda lífsgæði sín. Þeir lagabálkar sem komu sérstaklega til skoðunar voru lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög um mengunarvarnir, og lög um upplýsingarétt um umhverfismál.

Flutningsmenn vonast til þess að með lagabreytingunum verði staða almennings gagnvart stjórnvöldum og skylda stjórnvalda tryggð, sem og að tryggður verði réttur fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×