Innlent

Laun hækka um átta prósent

samtök atvinnulífsins Samið var um þriggja ára kjarasamning SA og fimm verkalýðsfélaga vegna Elkem í gær. 
fréttablaðið/gva
samtök atvinnulífsins Samið var um þriggja ára kjarasamning SA og fimm verkalýðsfélaga vegna Elkem í gær. fréttablaðið/gva
Nýr kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins (SA) og verkalýðsfélaganna vegna Elkem var undirritaður í gærmorgun. Samningurinn gildir til þriggja ára.

Laun starfsmanna félaganna geta samtals hækkað um tæp 8 prósent á þessu ári, að teknu tilliti til desember- og orlofsuppbóta, og um 14,7 prósent á samningstímanum, ef sami árangur næst í bónusmálum og síðustu ár.

Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) lagði til á mánudag að gerður yrði kjarasamningur til þriggja ára. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að samningurinn sé afturvirkur og því munu starfsmenn fá greitt frá 1. janúar 2011. Einnig hafi verið ákveðið að greiða starfsmönnum ein föst mánaðarlaun aukalega, vegna góðrar afkomu fyrirtækisins.

Kjarasamningurinn gildir um störf félagsbundinna starfsmanna hjá Elkem Ísland ehf. og er svonefndur vinnustaðarsamningur milli SA, fyrir hönd fyrirtækisins, og fimm verkalýðsfélaga.

Samkvæmt vinnulöggjöfinni ber öllum félagsmönnum að greiða atkvæði um breytingar á kjarasamningnum. Í samningnum, sem gildir til 31. janúar 2014, felast almennar launahækkanir upp á 4 prósent á þessu ári, 3,3 prósent árið 2012 og 3 prósent árið 2013.

Auk þess eru gerðar þrjár breytingar á bónuskerfinu. Bónushámarkið var áður samtals 10 prósent, en samið var um hámark samtals 13,5 prósent. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×