Innlent

Boðar varkárni vegna undanþága

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Forsætisráðherra segir að fara verði varlega þegar rætt sé um að veita fólki undanþágu vegna veitingar ríkisborgararéttar og fara verði að öllu með gát.

Eins og fram kom í Kastljósi RÚV hafa tíu fjársterkir einstaklingar sótt um íslenskan ríkisborgararétt, en þeir hafa lýst yfir áhuga á að fjárfesta í orku- og nýsköpunarverkefnum hér á landi fyrir milljarða króna.

Í fyrirspurn á Alþingi í gær sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að uggur sækti að henni í sambandi við þetta mál.

„Íslenska þjóðin þarf á erlendri fjárfestingu að halda til að byggja upp atvinnulífið, en okkur er ekki sama hverjir koma hingað.“

Málið er til skoðunar hjá allsherjarnefnd Alþingis.

Lögfræðingur tímenninganna hefur gagnrýnt innanríkisráðuneytið, sem hann segir hafa lagt steina í götu umsóknanna, en ráðuneytið vísar því á bug.

Í tilkynningu um málið segir: „Ráðherra hefur engin áform um að leggja til [...] breytingar þar sem vikið verði frá almennum skilyrðum laga um íslenskan ríkisborgararétt gegn greiðslu eða vegna viðskiptalegra sjónarmiða.“

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×