Innlent

Ekkert minnst á Helguvík

Ekki er minnst einu orði á álversframkvæmdir í Helguvík í drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, sem lögð voru fram sem trúnaðarmál á fundi með aðilum vinnumarkaðarins í gær.

Í kafla um orku- og iðnaðarmál er fjallað um verkefni sem farin eru af stað og sagt að fleiri séu í undirbúningi. Þar er einungis nefnt að Landsvirkjun muni halda áfram rannsóknum í Þingeyjarsýslum og sé í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar, sem gætu í besta falli numið 70 til 80 milljörðum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir kaflann rýran. Svo virðist sem stjórnvöld séu að reyna að tala sig í kringum álver í Helguvík.

„Við viljum sjá miklu ákveðnar fjallað um stórar fjárfestingar í atvinnulífinu heldur en þarna er gert,“ segir Vilhjálmur. Hann líti á þessi drög sem byrjun á viðræðunum.

Hvergi er heldur minnst á sjávarútvegsmál, sem Vilhjálmur telur ótækt þótt hann hafi ekki átt von á öðru að svo stöddu. Ekki tjái að ræða atvinnumál og hunsa sjávarútveginn. „Ef við færum að skilja hann eftir væri það eins og að ætla að fara af stað í langferð á bíl með þremur hjólum,“ segir hann.

Vilhjálmur fundaði um drögin í gærkvöldi með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambandsins. Viðbúið er að þau taki töluverðum breytingum þegar viðræður halda áfram næstu daga.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×