Innlent

Útivistarleiðir en ekki stígar á Arnarnesi

Stefán Konráðsson Kynnt verða áhersluatriði varðandi breytingar á deiliskipulagi Arnarness á íbúafundi, segir formaður skipulagsnefndar Garðabæjar.Fréttablaðið/Hari
Stefán Konráðsson Kynnt verða áhersluatriði varðandi breytingar á deiliskipulagi Arnarness á íbúafundi, segir formaður skipulagsnefndar Garðabæjar.Fréttablaðið/Hari
Arnarnes Íbúar á Arnarnesi mótmæltu þegar til stóð að setja göngustíga fyrir almenning neðan við sjávarlóðir á aðalskipulag fyrir hálfum öðrum áratug.FRéttablaðið/E.Ól.
„Þessi fundur er til að leggja fram kynningu og fá athugasemdir íbúanna,“ segir Stefán Konráðsson, formaður skipulagsnefndar Garðabæjar, um fund í Sjálandsskóla í kvöld um skipulagsmál á Arnarnesi.

Stefán segir það ekki rétt sem komið hafi fram hjá Auði Hallgrímsdóttur, varamanni lista Fólksins í bænum í skipulagsnefnd, að á íbúafundinum yrðu lögð fram drög að nýju deiliskipulagi heldur yrðu þar kynnt áhersluatriði skipulagsnefndar og ýmis álitamál.

„Þegar við erum búin að fá fram athugasemdir og sjónarmið eftir fundinn verður unnin deiliskipulagstillaga sem verður að sjálfsögðu auglýst. Þá gefst aftur tækifæri til að gera athugasemdir,“ útskýrir Stefán.

Þá segir Stefán það ekki rétt að gert sé ráð fyrir stíg meðfram ströndinni á Arnarnesi í aðalskipulagi. Við gerð aðalskipulags árið 1995 hafi þáverandi skipulagsnefnd fallið frá þeirri hugmynd.

„Hugmyndinni var mótmælt kröftuglega af fjölmörgum íbúum á þessum stað á þeim tíma. Eignarhaldið og legan var þannig að það var talið illframkvæmanlegt að standa að stígagerð. Hins vegar sýnir aðalskipulagið svokallaða útivistarleið, sem þýðir að öllum er heimil för um fjöruna,“ segir hann.

Í Fréttablaðinu í gær var einnig fjallað um óánægju íbúa í Túnunum sem segjast verða fyrir ónæði frá nálægu skátaheimili og klúbbhúsi Kiwanis-manna. Stefán segir að á fundi á dögunum með íbúum hverfisins hafi þessar athugasemdir komið fram.

„Við munum vinna með þær og koma síðan með okkar tillögu í nýju deiliskipulagi,“ segir formaður skipulagsnefndar Garðabæjar.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×