Innlent

Mæla lestur allra blaða á dagblaðaformi

Fréttablaðið er sem fyrr langmest lesna dagblað landsins, samkvæmt nýrri mælingu Capacent. Lestur á Fréttatímanum er nú í fyrsta skipti inni í lestrarmælingum og lestur á DV er mældur aftur eftir nokkurt hlé.

Samkvæmt upplýsingum frá Capacent stendur til að mæla lestur á öllum blöðum sem gefin eru út í dagblaðaformi. Því má búast við mælingum á lestri á Viðskiptablaðinu, Finnur.is og mögulega öðrum blöðum sem gefin eru út reglulega.

Nýjustu mælingar Capacent leiða í ljós að 60 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið að meðaltali. Það er 0,9 prósentustigum minna en í síðustu mælingu, sem gerð var í október. Lesturinn er mestur meðal höfuðborgarbúa á aldrinum 18 til 49 ára, 71,8 prósent.

Alls lesa 33,2 prósent landsmanna Morgunblaðið, og hefur lesturinn aukist um 1,7 prósentustig frá því í október. Um 28,6 prósent höfuðborgarbúa á aldrinum 18 til 49 ára lesa hvert tölublað.

Um 41,8 prósent landsmanna lesa Fréttatímann, sem kemur út einu sinni í viku, á föstudögum.

Um 48,6 prósent höfuðborgarbúa 18 til 49 ára lesa blaðið.

Alls lesa 12,5 prósent DV, sem kemur út þrjá daga í viku. Um 10,7 prósent höfuðborgarbúa á aldrinum 18 til 49 ára lesa blaðið að meðaltali.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×