Innlent

Telur tíð forstjóraskipti Orkuveitu mistök

kjartan magnússon
kjartan magnússon
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir aðgerðaráætlun fyrirtækisins að mörgu leyti skynsamlega. Hann telur þó að tíð forstjóraskipti fyrirtækisins og uppsögn fjármálastjóra á síðustu mánuðum hafi haft slæm áhrif á viðhorf erlendra banka. Hann segir yfirlýsingar bankanna gríðarleg vonbrigði. Kjartan situr einnig í stjórn OR.

„Ég er hræddur um að það hafi verið röng ákvörðun að skipta um þessa tvo lykilstjórnendur,“ segir Kjartan, og á þar við Hjörleif Kvaran, fyrrverandi forstjóra, og Önnu Skúladóttur, fyrrverandi fjármálastjóra.

„Einnig hafa öll þau klaufalegu ummæli sem hafa verið látin falla í fjölmiðlum alveg örugglega ekki hjálpað og sennilega dregið úr vilja bankanna til að endurfjármagna.“

Kjartan er í meginatriðum sammála því að selja sem mest af eignum Orkuveitunnar og styður tillögu forstjórans um að koma Gagnaveitunni í verð. Hann dregur þó gjaldskrárhækkanirnar í efa og segir þá útreikninga sem liggi fyrir ekki fullnægjandi.

Kjartani líst vel á áform borgarráðs að láta gera úttekt á starfsemi Orkuveitunnar aftur í tímann.

Það sé þó ekkert nýtt, heldur séu reglulega gerðar slíkar úttektir.

„Ég tel að það væri rétt að málin yrðu skoðuð alveg frá stofnun fyrirtækisins,“ segir hann.

„Það verður ekki litið framhjá því að afar margar skuldir urðu til á tímabilinu 2003 til 2006.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×