Innlent

Forstöðumaður kærður fyrir kynferðisbrot

Forstöðumaður Ekron, samtaka sem annast meðal annars starfsþjálfum og endurhæfingu óvirkra vímuefnaneytenda og öryrkja, hefur verið kærður til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir kynferðisbrot.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst barst kæran fyrr í þessum mánuði. Kona sem var skjólstæðingur samtakanna kærði forstöðumanninn fyrir að hafa haft samfarir við sig. Kvittur um atvikið mun hafa komið upp meðal fólks hjá Ekron sem hvatti konuna til að kæra, sem hún og gerði.

Forstöðumaðurinn vildi ekki tjá sig við Fréttablaðið þegar eftir því var leitað að öðru leyti en því að hann væri í fríi og málið hjá lögreglu. „Ég er upptekinn,“ sagði hann.

Ekron aðstoðar óvirka alkóhólista, fíkniefnaneytendur, öryrkja og alla þá sem ekki eru á vinnumarkaði, samkvæmt heimasíðu samtakanna. Ekron rekur endurhæfingu og starfsþjálfun að Grensásvegi 16, sem og áfangaheimili að Hólabergi 80 í Breiðholti, þar sem konan var skjólstæðingur. Áfangaheimilið er eingöngu fyrir þá sem eru í starfsþjálfun og endurhæfingu í Ekron.

Ríki og tiltekin sveitarfélög hafa styrkt samtökin undanfarin ár með þjónustusamningum. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu var samningur ráðuneytisins við samtökin síðast framlengdur frá 1. mars síðastliðnum til 31. maí.

Þá hafa samtökin verið styrkt af stofnunum og fyrirtækjum.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×