Innlent

Árangurslaust fjárnám algengara

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Einar K. Guðfinnsson
Alls hafa 363 fyrirtæki fengið tilboð frá viðskiptabanka sínum á grundvelli Beinu brautarinnar; samkomulagi stjórnvalda, atvinnulífsins og fjármálafyrirtækja um leiðir til úrvinnslu skuldamála smárra og meðalstórra fyrirtækja. Til meðferðar í bönkunum eru mál 949 fyrirtækja.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, upplýsti þetta á Alþingi í gær og jafnframt að árangurslaust fjárnám í fyrirtækjum hefði aukist síðustu mánuði.

Einar K. Guðfinnsson Sjálfstæðisflokki spurðist fyrir um málið. Gat hann þess að þegar lagt var upp með Beinu brautina í desember síðastliðnum hafi verið talið að á bilinu fimm til sjö þúsund fyrirtæki gætu nýtt sér úrræðið. Nú bærust fregnir af því að reyndin væri önnur.

Árni Páll sagði þær fregnir réttar. Upplýsingar bentu til að 1.700 fyrirtæki gætu nýtt sér Beinu brautina. Upphaflegu tölurnar hafi verið ágiskun auk þess sem komið hefði í ljós að viðmið Beinu brautarinnar hafi ekki hentað smæstu fyrirtækjunum.

Einar lýsti þungum áhyggjum af stöðu mála og velti fyrir sér hvort horfur væru á að fjöldi fyrirtækja sem ekki fengi úrlausn færi á hausinn með tilheyrandi kostnaði og röskun fyrir atvinnu- og efnahagslífið.

Mikilvægt væri að hraða málum og skoða stöðu þeirra fyrirtækja sem útlit væri fyrir að féllu milli skips og bryggju í Beinu brautinni. Smá og meðalstór fyrirtæki væru samfélaginu gríðarlega mikilvæg. Undir það tók Árni Páll.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×