Innlent

Stálu glænýjum heimilistækjum

Stálu tækjum Halldóra Einarsdóttir utan við hesthúsið þaðan sem heimilistækjum var stolið í innbroti. Fréttablaðið/Stefán
Stálu tækjum Halldóra Einarsdóttir utan við hesthúsið þaðan sem heimilistækjum var stolið í innbroti. Fréttablaðið/Stefán
Bífræfnir þjófar létu greipar sópa í nýju hesthúsi við Fluguskeið í Sörlahverfinu við Kaldárselsveg aðfaranótt miðvikudags. Meðal þess sem þjófarnir höfðu á brott með sér eru glæný og ónotuð heimilistæki.

Halldóra Einarsdóttir, eigandi hesthússins, segir í samtali við Fréttablaðið að tjónið sé talsvert.

„Það voru menn að vinna í húsinu fram til klukkan tíu á þriðjudagskvöld, en þegar við komum aftur upp eftir á miðvikudagsmorgun var búið að stela þaðan þvottavél, þurrkara, kæliskáp, helluborði, veggofni og örbylgjuofni.“

Öll tækin eru af gerðinni AEG, nema örbylgjuofninn sem er af gerðinni Samsung.

Halldóra segir að lögreglu hafi verið gert viðvart, en þau hafi heyrt af því að reynt hefði verið, án árangurs, að brjótast inn í nágrenninu.

„Þetta er mikill skaði fyrir okkur og gífurlegt áfall. Við erum mjög leið yfir þessu en ef einhver hefur orðið var við dularfullar mannaferðir þessa nótt viljum við biðja viðkomandi um að hafa samband við lögregluna.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×