Innlent

Treysta Evrópusambandinu betur en Alþingi

Íslendingar treysta alþjóðlegum stofnunum eins og ESB og Sameinuðu þjóðunum mun betur en eigin stjórnvöldum.

Um 28 prósent Íslendinga segjast treysta Alþingi og ríkisstjórninni en um 54 prósent Evrópuþinginu. Vantraust til Alþingis mælist hins vegar 68 prósent en 28 prósent í garð Evrópuþings. Seðlabanki Evrópu er sú stofnun ESB sem flestir treysta á Íslandi, eða 56 prósent. Sameinuðu þjóðunum treysta 84 prósent Íslendinga.

Þetta kemur fram í Eurobarometer-skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Evrópusambandið og kynnt var fyrir nokkru.

Flestir aðspurðra taka undir að þeir treysti lögreglunni (92 prósent) en fæstir segjast treysta stjórnmálaflokkum (12 prósent).

Þar kemur og fram að fólk á Íslandi telur annað fólk í samfélaginu í verri aðstæðum en það sjálft: 77 prósent aðspurðra telja eigin atvinnuaðstæður góðar, um leið og 85 prósent telja atvinnuaðstæður annarra slæmar.

Séu svör Íslendinga borin saman við svör annarra þjóða, en spurt er á sama hátt í 32 ríkjum innan ESB og utan, kemur í ljós að fáar Evrópuþjóðir upplifa sig í betri aðstæðum en Íslendingar. Einungis Svíar telja persónulegar atvinnuaðstæður sínar betri. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×