Innlent

Vilja að ríkisstjórnin skuldbindi sig

Að fundi loknum Vilhjálmur Egilsson, Vilmundur Jósefsson og Grímur Sæmundsen, koma af fundi með ráðherrum í gærmorgun.Fréttablaðið/Pjetur
Að fundi loknum Vilhjálmur Egilsson, Vilmundur Jósefsson og Grímur Sæmundsen, koma af fundi með ráðherrum í gærmorgun.Fréttablaðið/Pjetur
Forystumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins áttu fund með sjö ráðherrum, þar á meðal forsætis- og fjármálaráðherra, í gærmorgun. Þar var farið yfir atriði sem snúa að stjórnvöldum í kjaraviðræðum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir á vef sambandsins að mörg þeirra mála sem að ríkinu snúi séu í góðum farvegi, deilt sé um útfærslur og fjármögnun. Stóri ásteytingarsteinninn sé grundvöllur efnahagsstefnunnar, bæði forsendur gengisþróunar, hagvöxtur og atvinnumál. ASÍ vill að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa fyrir ákveðinni innspýtingu í hagkerfið á næstu þremur árum. Gylfi segir að áhersla hafi verið lögð á það á fundinum í gærmorgun að tíminn yrði brátt á þrotum, ætti að klára samninga fyrir næstu útborgun launa.

„Málin verða að komast fyrir alvöru á hreyfingu þannig að þau klárist í næstu viku.“

Í pistli Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, á þriðjudag segir hann ljóst að niðurstöður fáist ekki í viðræðum SA og ASÍ um launabreytingar í væntanlegum samningum fyrr en skýrist hvað ríkisstjórnin sé tilbúin til að leggja af mörkum til að skapa þær aðstæður að hægt verði að gera kjarasamninga til þriggja ára.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×