Innlent

Um 430 viðskiptavinir eiga farminn

goðafoss strandaður Farmurinn um var mestmegnis matvæli, sjónvörp og myndbandsupptökuvélar.
goðafoss strandaður Farmurinn um var mestmegnis matvæli, sjónvörp og myndbandsupptökuvélar.
Talið er að um 20 prósent af farmi Goðafoss séu ótryggð. Verið er að safna saman gögnum frá öllum viðskiptavinum sem voru með vörur um borð í skipinu til að meta heildarvirði farmsins. Fjöldi viðskiptavina er svipaður og fjöldi gáma um borð, eða um 430 talsins.

Eimskip fær ekki upplýsingar um verðmæti eða innihald farmsins nema um eiturefni sé að ræða.

Farmurinn í Goðafossi var af ýmsum toga. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir hann mestmegnis hafa verið almennar neysluvörur; fiskur í frystigámum, matvæli og raftæki.

„Það eina sem við vitum nákvæmlega um farminn, er að í honum eru engin eiturefni,“ segir Ólafur. Spurður hvort það sé rétt að málmhjúpurinn sem er ætlaður utan um tónlistarhúsið Hörpu hafi verið um borð, segist Ólafur ekki hafa neitt meira fyrir því en hann hafi lesið um í fjölmiðlum. Ekkert skemmdist um borð við strandið.

Eimskip hefur lýst yfir sjótjóni í samræmi við siglingalög. Tjónið er jafnað niður, eigendur allra verðmætanna munu greiða sameiginlegan kostnað sem af atvikum hlýst. Þeir sem eru með farmtryggingu verða ekki fyrir tjóni. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×