Innlent

Rúm 60% segja já við Icesave

Icesave.
Icesave.
Ríflega sex af hverjum tíu segjast ætla að samþykkja samkomulagið sem náðst hefur við Hollendinga og Breta í Icesave-deilunni í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls segjast 61,3 prósent þeirra sem afstöðu taka til samningsins ætla að samþykkja hann í þjóðaratkvæðagreiðslunni, en 38,7 prósent ætla að hafna honum.

Stór hluti kjósenda, um 29,6 prósent, á enn eftir að gera upp hug sinn samkvæmt könnuninni. Um 3,5 prósent sögðust ekki ætla að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna og Vinstri græn, yrði kosið til þings núna, ætlar að samþykkja Icesave-samninginn. Yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna Framsóknarflokksins segist ætla að hafna samningnum.

Alls sögðust um 22 prósent framsóknarmanna ætla að samþykkja samninginn. Um 65 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins ætla að styðja samninginn, 76 prósent þeirra sem styðja Samfylkinguna og 89 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna. Útreikningur á afstöðu stuðningsmanna Hreyfingarinnar er ekki tölfræðilega marktækur.

Í könnun MMR, sem gerð var dagana 20. til 21. febrúar, sögðust 57,7 prósent myndu samþykkja Icesave-samninginn en 42,3 prósent sögðust myndu hafna honum.

Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 23. febrúar og fimmtudaginn 24. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Ætlar þú að samþykkja Icesave-samkomulagið eða hafna því í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Alls tóku 63,4 prósent afstöðu til spurningarinnar.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×