Innlent

Íslenskir karlar langlífastir í Evrópu

Reykjavíkurtjörn Íslendingar eru með langlífustu Evrópuþjóðum. Styst er ævi fólks í Úkraínu.Fréttablaðið/Pjetur
Reykjavíkurtjörn Íslendingar eru með langlífustu Evrópuþjóðum. Styst er ævi fólks í Úkraínu.Fréttablaðið/Pjetur
Í fyrra dóu 2.017 einstaklingar búsettir á Íslandi, 1.063 karlar og 954 konur. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands létust 6,3 á hverja 1.000 íbúa, en dánartíðni stóð í stað milli ára.

„Ungbarnadauði á Íslandi var 2,2 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2010 en var 2,0 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum á árabilinu 2006 til 2010,“ segir á vef Hagstofunnar. Ungbarnadauði er minnstur hér meðal Evrópuþjóða. Mestur er hann í Tyrklandi, eða 15,3 af hverjum 1.000 börnum.

„Árið 2010 gátu nýfæddir drengir vænst þess að ná að meðaltali 79,5 ára aldri, en stúlkur 83,5 ára aldri.“

Þá kemur fram að lífslíkur íslenskra karla hafi batnað mjög á undanförnum árum. „Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2009 var meðalævilengd íslenskra karla 79,7 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið meðal Evrópuþjóða það ár.“

Árið 2009 var meðalævilengd íslenskra kvenna hins vegar 83,3 ár og skipuðu þær fimmta sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur í Frakklandi, eða 84,3 ára, en styst er ævi þeirra í Úkraínu, 73,6 ár.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×