Innlent

Strípuðu íbúðir fyrir uppboð

NBI hf. Gerir kröfu um 5,3 milljóna króna greiðslu frá konunum.
NBI hf. Gerir kröfu um 5,3 milljóna króna greiðslu frá konunum.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákært tvær konur í Garði fyrir að hreinsa allt innan úr íbúð, sem var veðsett Landsbankanum fyrir ríflega 30 milljónir króna, áður en þær misstu hana. Þá var par í Sandgerði ákært fyrir sömu sakir. Hús þess var veðsett Glitni fyrir 22 milljónir.

Konurnar eru ákærðar fyrir skilasvik með því að hafa á tímabilinu til 5. nóvember árið 2008 fjarlægt úr húsi sínu í Garði allar innihurðir ásamt körmum, baðinnréttingu og tæki, eldhúsinnréttingu og tæki, baðinnréttingu inni af svefnherbergi og rafmagnstengla, án heimildar veðhafa, Landsbanka Íslands, nú NBI banka hf.

Taldi bankinn verðmæti búnaðarins nema 5,3 milljónum og vill fá þær greiddar. Eignin var seld á nauðungarsölu 5. nóvember 2008 og var bankinn kaupandi hennar.

Parið er ákært fyrir að hafa fjarlægt ofn úr stofu, sjö ofnkrana, baðinnréttingu með blöndunartækjum, eldhúsinnréttingu, 150 fermetra hellulögn af lóð hússins, sólpall og heitan pott. Íslandsbanki, sem keypti eignina á nauðungarsölu, vill frá ríflega 3,5 milljónir fyrir búnaðinn.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×