Innlent

Ítarlegar upplýsingar fylgi umsóknunum

Innanríkisráðuneytið hefur auglýst þrjú embætti hæstaréttardómara laus til umsóknar.

Er til þeirra stofnað vegna aukins álags á réttinn. Eiga hæstaréttardómarar nýjum lögum samkvæmt að vera tólf næstu ár. Frá 2013 verður ekki skipað í þrjár stöður sem losna upp frá því, þar til dómarar verða aftur orðnir níu.

Í auglýsingunni er í ellefu liðum fjallað um hvaða upplýsingum umsækjendum ber að veita um sjálfa sig. Meðal þess eru upplýsingar um menntun og reynslu, almenna og sérstaka starfshæfni, andlegt atgervi og sjálfstæði í vinnubrögðum. Þá er beðið um upplýsingar um þrjá fyrrverandi samstarfsmenn sem geta veitt dómnefnd upplýsingar um störf og samstarfshæfni umsækjanda.

Með umsókn eiga að fylgja, eftir því sem við á, afrit af skriflegum verkum umsækjanda síðasta ár, hvort heldur er dómar, stefnur eða úrskurðir unnir fyrir stjórnvöld. Sömuleiðis er óskað eftir afritum af fræðiritum og tímaritsgreinum.

Ekki hefur áður verið krafist jafn ítarlegra upplýsinga í auglýsingum um dómarastarf.

Dómnefnd mun meta hæfni umsækjenda og hverja hún telur hæfasta. Formaður hennar er Páll Hreinsson hæstaréttardómari en aðrir nefndarmenn eru Stefán Már Stefánsson, Guðrún Agnarsdóttir, Allan Vagn Magnússon og Brynjar Níelsson. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×