Innlent

Samtök lánþega gagnrýna SP

bílafloti SP Fjármögnun rifti samningum við 80 manns í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara í síðustu viku.fréttablaðið/pjetur
bílafloti SP Fjármögnun rifti samningum við 80 manns í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara í síðustu viku.fréttablaðið/pjetur
SP Fjármögnun hefur rift bílakaupleigusamningum við áttatíu viðskiptavini sína. Fólkið, sem hefur allt sótt um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, fékk tilkynningu um málið sent heim í bréfi í síðustu viku.

Samtök lánþega benda á að með riftunum á bílasamningum skuldara sem eru í umsóknarferli um greiðsluaðlögun séu fjármögnunarfyrirtækin að fara fram á að skuldari fremji lögbrot með því að mismuna kröfuhöfum á síðari stigum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Þar segir að í mörgum tilfellum sé um að ræða samninga þar sem ljóst sé að eignarhlutur skuldara í bifreið sé umtalsverður. Í slíkum tilfellum sé verið að mismuna kröfuhöfum. Verið sé að ganga gegn almennum rétti neytenda með því að svipta þá eign sinni án þess að fullnaðaruppgjör komi á móti. Er í því tilefni bent á hæstaréttardóma sem segi kaupleigusamninga vera lánasamninga og því sé lánþegi hinn rétti eigandi bifreiðar og fjármálafyrirtæki óheimilt að ráðstafa þeirri eign.

Samtökin krefjast þess að SP Fjármögnun láti þegar af þessari háttsemi og taki upp viðræður við lánþega um aðrar útfærslur á málunum.

Um leið og fólk sækir um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara má það ekki borga af skuldum og er það ástæðan fyrir riftun samninganna.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×