Innlent

Greip inn í fíkniefnaviðskipti

Maríjúana Lögregla stöðvaði kannabisræktun og fíkniefnaviðskipti um helgina.
Maríjúana Lögregla stöðvaði kannabisræktun og fíkniefnaviðskipti um helgina.
Lögreglan á Akureyri stöðvaði kannabisræktun í íbúð á Akureyri um helgina. Hald var lagt á fjórtán kannabisplöntur, nokkra græðlinga og búnað til ræktunar.

Við leit í íbúðinni var síðan lagt hald á um tuttugu grömm af maríjúana sem er talið vera afgangur af fyrri ræktun á sama stað. Tveir menn á þrítugsaldri viðurkenndu við yfirheyrslur að hafa staðið að ræktuninni.

Á laugardaginn gripu svo lögreglumenn inn í fíkniefnaviðskipti sem áttu sér stað á miðri íbúðargötu á Akureyri. Þrír aðilar voru handteknir og í framhaldinu var framkvæmd húsleit á heimili þess sem var að selja efnin. Þar var lagt hald á um 70 til 80 grömm af maríjúana. Efninu hafði verið pakkað í sölueiningar og var falið á víð og dreif um íbúðina.

Aðfaranótt sunnudags var lögreglan kvödd að fjölbýlishúsi í bænum vegna kvartana undan hávaða. Er lögregla kom á staðinn kom í ljós að fíkniefna hafði verið neytt. Þrír voru handteknir og smáræði af fíkniefnum var haldlagt, einnig tæki og tól til neyslu. Síðan var samkvæmið leyst upp. Öll málin teljast upplýst.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×