Viðskipti erlent

Mærsk hefur lært að lifa með mafíunni í New York

Danska skipafélagið Mærsk rekur risavaxna gámahöfn í Port Elizabeth í New Jersey og hefur þurft að læra að lifa með mafíunni í New York. Hafnirnar í New York og New Jersey eru áhrifasvæði mafíunnar og þá einkum Genovese fjölskyldunnar.

Fjallað er um málið í Politiken. Þar segir að APM Terminal höfnin, sem er í eigu Mærsk, borgi óbeint til mafíunnar í gegnum uppblásin laun hafnarverkamanna, jólabónusa og óþarflega marga starfsmenn. Þannig mjólki mafían hafnarverkamennina í gegnum verkalýðsfélög þeirra.

Fram kemur í blaðinu að stóraðgerð lögreglunnar í New York nýlega gegn mafíunni þar í borg, þar sem 127 meðlimir glæpasamtakanna voru handteknir, hafi síður en svo slegið á umsvif mafíunnar á fyrrgreindum hafnarsvæðum. Meðal þeirra handteknu voru eru formenn og nokkrir meðlimir verkalýðsfélagsins ILA sem hafnarverkamennirnir heyra til.

Samkvæmt Politiken kostar mafíustarfsemin á hafnarsvæði Mærsk skipafélagið margar milljónir dollara á hverju ári. Hinsvegar vill APM Terminal ekki tjá sig um málið. John Crowley lögmaður APM Terminal segir hinsvegar að félagið borgi verkamönnum sínum í samræmi við þá launataxta sem eru í gildi. Að öðru leyti vísar APM Terminal til eftirlitsstofnunarinnar Waterfront Commission.

Politiken segir að við vitnaleiðslur hjá Waterfront Commission s.l. haust hafi komið fram að mafían hefur áhrif á starfsemi APM Terminal í gegnum heljargreipar sínar á verkalýðsfélaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×