Körfubolti

Annar skellur Grindvíkinga í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Pettinella.
Ryan Pettinella.
Grindvíkingar töpuðu sínum öðrum leik í röð í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið tapaði með 23 stiga mun á móti ÍR-ingum í Seljaskóla, 92-69. ÍR-ingar unnu aðeins 2 af fyrstu 10 leikjum sínum en unnu þarna sinn fjórða sigur í síðustu sex leikjum.

Grindvíkingar voru búnir að vinna sex leiki í röð þegar þeir töpuðu óvænt með 19 stiga mun á heimavelli á móti Haukum á dögunum og þeir steinlágu síðan aftur í kvöld.

Nemanja Sovic skoraði 26 stig fyrir ÍR, James Bartolotta bætti við 22 stigum og Kelly Biedler var með 16 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar.

Kevin Sims lék sinn fyrsta leik með Grindavíkurliðinu í kvöld en liðið hafði ekki verið með bandarískan bakvörð í fyrstu fimm leikjum ársins. Sims endaði leikinn með 17 stig en klikkaði á 9 af 13 skotum sínum og skoraði flest stig sín þegar úrslitin voru ráðin.

ÍR tók frumkvæðið með því að skora sjö stig í röð í fyrsta leikhluta og komast í 20-11. ÍR-ingar voru 22-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann og voru síðan komnir með 24 stiga forskot í hálfleik, 56-32.

ÍR-ingar voru enn með 25 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 74-49, og þá var orðið löngu ljóst í hvað stefndi en lokin skildu 23 stig liðin af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×