Enski boltinn

Fær Michael Johnson loksins tækifæri hjá City?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Johnson í leik með City í október árið 2009 en síðan þá hefur hann ekki spilað með liðinu.
Johnson í leik með City í október árið 2009 en síðan þá hefur hann ekki spilað með liðinu. Nordic Photos / Getty Images
Michael Johnson á möguleika á að spila sinn fyrsta leik með Manchester City í meira en eitt ár þegar að liðið mætir Aris Thessaloniki í Evrópudeild UEFA annað kvöld.

Þetta er fyrsti leikurinn í 32-liða úrslitum keppninnar en liðin mætast í Grikklandi annað kvöld í fyrri viðureign liðanna.

Roberto Mancini ætlar sér helst að vinna keppnina enda er krafan um titil hjá félaginu orðin ansi hávær.

Carlos Tevez er í leikmannahópi City sem og Mario Balotelli sem hefur ekki spilað síðan 28. desember síðastliðinn.

Það kom svo mörgum á óvart að Johnson var valinn í leikmannahópinn sem fór til Grikklands en hann gæti fengið óvænt tækifæri í fjarveru þeirra James Milner og Nigel de Jong sem báðir eru meiddir.

Johnson er 22 ára gamall og hefur ekki komið við sögu hjá City síðan í október árið 2009. Síðast var hann í byrjunarliðinu haustið 2008.

Hann á þó alls 37 leiki að baki með félaginu en hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 2006, þá átján ára gamall.

Johnson hefur þó átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin ár auk þess sem margir hafa sjálfsagt einfaldlega gleymt kappanum enda hefur City verið duglegt við að kaupa nýja leikmenn til félagsins á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×