Lífið

Anita Briem í rúminu með Superman

Anita Briem í heitum ástarleik með Brandon Routh.
Anita Briem í heitum ástarleik með Brandon Routh.
Anita Briem leikur í rómantískri ástarsenu með bandaríska leikaranum Brandon Routh, best þekktum sem Ofurmennið úr samnefndri mynd frá árinu 2006, í myndasögu-kvikmyndinni Dylan Dog: Dead of Night.

Fyrstu myndirnar úr kvikmyndinni eru komnar á netið og þar má glögglega sjá að hlutverk Anitu er nokkuð stórt en hún leikur Elizabeth, ástkonu Dylans Dog.

Anita ekki alveg í nógu góðum málum hér.
Samkvæmt síðustu fréttum verður myndin frumsýnd 18. mars á Ítalíu en erfiðlega hefur gengið að fá dreifingarsamning í Bandaríkjunum. Myndarinnar hefur þó verið beðið með óþreyju hjá myndasögu­njörðum í tvö ár en hún byggir á ítölskum „költ"-myndasögum um einkaspæjarann Dylan Dog sem hefur yfirskilvitlega hæfileika.

Leikaraliðið mætti meðal annars á myndasöguhátíðina Comic Con fyrir tveimur árum og vakti þar mikla athygli.

Anita hefur haft ágætt að gera í Hollywood en hún hefur einbeitt sér að leik í sjálfstæða kvikmyndageiranum. Hún hefur nýlokið við að leika í söngvamyndinni You, Me & The Circus og birtist væntanlega á næstunni í kvikmyndunum Elevator og Escape to Donegal.

Leikstjóri myndarinnar er Kevin Monroe en með önnur hlutverk í myndinni fara þeir Taye Diggs og Peter Stormare sem sjást á myndinni hér til hliðar. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×