Íslenski boltinn

Fyrsti landsleikurinn undir stjórn Lagerbäck verður í Japan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson og Lars Lagerbäck.
Geir Þorsteinsson og Lars Lagerbäck. Mynd/Vilhelm
Knattspyrnusambönd Íslands og Japans hafa komist að samkomulagi um karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik í Japan, 24. febrúar næstkomandi. Leikið verður á Nagai vellinum í Osaka en á þessum velli var m.a. leikið á HM í Japan/Suður Kóreu árið 2002. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Leikurinn mun bera heitið „Kirin Challenge Cup" en Japanir mæta svo Úsbekistan í undankeppni HM þann 29. febrúar. Það verður síðasti leikur Japans í sínum riðli og með sigri tryggja þeir sér efsta sætið. Þeir hafa þó tryggt sér sæti í næstu umferð undankeppni Asíu fyrir HM.

Þetta er annar vináttulandsleikurinn sem skipulagður er í febrúar, því Ísland mætir Svartfjallalandi ytra þann 29. febrúar næstkomandi. Það átti í fyrstu að vera fyrsti leikur liðsins undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Lars Lagerbäck, sem tekur formlega við liðinu nú um áramótin, en nú er ljóst að hann byrjar með liðin í Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×