Fótbolti

Íslenskum markvörðum fækkar áfram í Svíþjóð | María Björg er hætt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Björg Ágústsdóttir varði mark Íslands í mikilvægum leikjum á móti Írum.
María Björg Ágústsdóttir varði mark Íslands í mikilvægum leikjum á móti Írum. Mynd/Daníel
María Björg Ágústsdóttir, markvörður KIF Örebro í sænsku kvennadeildinni hefur ákveðið að hætta í fótbolta en hún var að klára sitt fyrsta ár með sænska liðinu. Þetta kom fram á fótbolti.net. María er annar markvörðurinn sem snýr heim úr sænska kvennaboltanum á árinu en Sandra Sigurðardóttir hætti hjá Jitex á miðju sumri.

Íslenskum markvörðum í deildinni hefur því fækkað um helming, úr fjórum í tvo, en landsliðsmarkverðirnir, Þóra Björg Helgadóttir hjá Malmö og Guðbjörg Gunnarsdóttir hjá Djurgarden, spila áfram í Svíþjóð á næsta tímabili.

María Björg var aðalmarkvörður Örebro-liðsins en lék ekkert með liðinu eftir að hún fékk slæmt höfuðhögg í leik á móti Linköping 17. ágúst síðastliðinn.

„Ég ætla mér ekki að spila á næsta ári. Þetta er í raun ákvörðun sem ég tók á meðan ég var enn að berjast við einkenni heilahristingsins, sem ég var rúma tvo mánuði að hrista af mér," sagði María Björg í viðtali við Fótbolta.net í morgun en það má finna allt viðtalið með því að smella hér.

María er 29 ára gömul en hún hafði tekið sér frí frá fótbolta árin 2006 og 2007 en byrjaði síðan að spila aftur með KR árið 2008. Hún er uppalin í Stjörnunni en fór síðan í Val þar sem hún varð tvöfaldur meistari 2009 og 2010. María var einnig í kringum A-landsliðshópinn og varði mark íslenska liðsins þegar stelpurnar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni EM eftir tvo umspilsleiki við Íra. Hún var hinsvegar ekki valin í lokahópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×