Innlent

Aratúnsfjölskyldan áfrýjar ekki málinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Aratúnsfjölskyldunnar, segir að málinu verði ekki áfrýjað.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Aratúnsfjölskyldunnar, segir að málinu verði ekki áfrýjað.

Aratúnsfjölskyldan ætlar ekki að áfrýja sýknudómi í meiðyrðamáli sem fjölskyldan höfðaði gegn Trausta Laufdal Aðalsteinssyni, sem bloggaði á vefsvæði DV. Trausti kallaði fjölskylduna meðal annars bilað lið og „mansonfjölskyldu sem ætti að vista í vel afgirtu búri í húsdýragarðinum". Dómurinn sýknaði bæði Trausta og útgáfufélag DV.



Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður fjölskyldunnar, segir að eftir að hafa farið yfir dóminn, sem féll í dag, telji hann að dómurinn sé vel og skilmerkilega rökstuddur af hálfu Héraðsdóms Reykjavíkur og vel sé hægt að fallast á þær forsendur sem fram komi, meðal annars að ummælin séu smekklaus og óviðurkvæmileg.



„Eins og þetta mál stendur lætur hins vegar héraðsdómur tjáningarfrelsið látið njóta vafans og sýknar í málinu. Þótt ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá niðurstöðuna á annan veg þá kaupi ég þau rök. Málinu verður því ekki áfrýjað," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×