Viðskipti erlent

Munir úr dánarbúi Elisabeth Taylor seldir á sex milljarða

Um 2.000 munir sem voru í eigu Hollywood dívunnar Elisabeth Taylor eru nú á uppboði hjá Christie´s í New York. Reiknað er með að um 6 milljarðar króna fáist fyrir þessa muni en meðal þeirra er umfangsmikið skartgripasafn Taylor sem lést í mars á þessu ári.

Skartgripir þessir eru að mestu gjafir frá eiginmönnum Taylor í gegnum tíðina en þeir urðu alls sjö talsins. Það var sérstaklega leikarinn Richard Burton sem giftist Taylor tvisvar sem var örlátur við að gefa konu sinni skartgripi.

Meðal skartgripanna er að finna stærstu perulagaða perlu heimsins, La Peregrina, en hún var eitt sinn hluti af spænsku krúnudjásnunum.

Það sem fæst fyrir þessa muni á uppboðinu verður skipt upp á milli barna Taylor og sjóðsins sem leikkonan stofnaði til að berjast gegn eyðni í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×