Fótbolti

Óvæntur sigur Bröndby gegn FCK - Sölvi ekki með vegna meiðsla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson, til hægri, í leik með FCK.
Ragnar Sigurðsson, til hægri, í leik með FCK. Nordic Photos / Getty Images
Bröndby hafði í dag betur gegn erkifjendum sínum í FC Kaupmannahöfn í dönsku úrvalsdeildinni, 2-1. Ragnar Sigurðsson lék allan leikinn sem miðvörður í vörn FCK en Sölvi Geir Ottesen var ekki með vegna meiðsla.

Sölvi Geir staðfesti í samtali við Vísi að ákvörðun hafi verið tekin fyrir leik að hann myndi ekki spila þar sem hann hefur verið tæpur vegna meiðsla í baki.

Sigur Bröndby var óvæntur enda liðið í tíunda sæti deildarinnar af tólf liðum. FCK er hins vegar á toppi deildarinnar með 35 stig, sjö stigum meira en Nordsjælland sem er í öðru sæti.

Peter Larsson tók stöðu Sölva í byrjunarliðinu en hann þurfti sjálfur að fara meiddur af velli eftir aðeins tólf mínútna leik og inn í hans stað kom bakvörðurinn Johnny Thomsen. Það hafði greinilega slæm áhrif á varnarleik FC Kaupmannahafnar í dag.

FCK byrjaði gríðarlega vel í upphafi tímabilsins en hefur aðeins verið að gefa eftir og tapað þremur af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. Sigri Nordsjælland leik sinn gegn Íslendingaliðinu SönderjyskE í dag minnkar forysta FCK í aðeins fjögur stig.

Bröndby virðist hins vegar aðeins vera að rétta úr kútnum eftir skelfilega byrjun í haust. Liðið hefur nú ekki tapað í þremur leikjum í röð og er nú komið upp í sautján stig. Bröndby er í tíunda sæti deildairnnar en aðeins níu stigum á eftir Midjylland sem er í þriðja sæti.

Uppfært 17.00: Nordsjælland hafði betur gegn SönderjyskE, 2-0. Eyjólfur Héðinsson og Hallgrímur Jónsson léku báðir allan leikinn með SönderjyskE. Nordsjælland hefur því minnkað forystu FCK á toppnum í fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×