Viðskipti innlent

Íslandsbanki búinn að undirbúa skuldabréfaútgáfu erlendis

Hafsteinn Hauksson skrifar
Bankastjóri Íslandsbanka segir að bankinn sé nú þegar búinn að undirbúa skuldabréfaútgáfu erlendis og bíði nú færis. Fyrst eftir hrun hafi bankinn þurft að grátbiðja erlenda banka um að fá að opna reikninga erlendis.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er gestur í nýjasta þætti Klinksins á Vísi, en þar segir hún að íslensku bankarnir leggi áherslu á sérstöðu sína í samskiptum við erlenda banka um þessar mundir. Búið sé að færa niður efnahagsreikninga íslensku bankanna, á meðan enn ríki óvissa um eignir erlendra banka og þeir berjist því við að halda í eiginfjárstöðu sína.

"Ég finn það að erlendir bankamenn og matsfyrirtækin gera sér grein fyrir því að við erum með sterkan efnahagsreikning, líka af því við erum með sterkt eigið fé," segir Birna.

En eru fólgin sóknarfæri í þessari sérstöðu sem íslensku bankarnir eru ekki að nýta?

"Þó þetta séu hænuskref í þessum erlendu samskiptum, þá eru þau öll í rétta átt. Þegar við vorum að byrja, þá vorum við að grátbiðja erlenda banka um að fá að opna hjá þeim reikninga."

Síðan þá hafi hins vegar verið opnað fyrir alls kyns þjónustu gagnvart íslensku bönkunum erlendis, og þeir séu langt komnir með að ná fyrri stöðu hvað almenn bankaviðskipti varðar, þó sumir telji langt í að bankarnir geti sótt lánsfé á erlenda skuldabréfamarkaði.

"Ég held að það sem er að gerast í Evrópu núna sé að seinka því ferli. Við hjá Íslandsbanka erum búin að undirbúa það hvernig við ætlum að standa að því, og erum að bíða eftir tækifæri þegar markaðir róast; hvernig við ætlum að kynna okkur og hver næstu skref verða."

Horfa má á viðtalið við Birnu í heild sinni hér á Sjónvarpssíðu Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×