Fótbolti

Ferguson ánægður með strákana sína

Þó svo Man. Utd hafi ekki verið að spila neinn sambabolta á síðustu vikum hefur liðið verið að klára sína leiki og stjórinn, Sir Alex Ferguson, er ánægður með það hvernig liðið hefur brugðist við skellinum gegn Man. City fyrir nokkrum vikum.

United hefur unnið fimm leiki í röð eftir 6-1 flenginguna og hefur þess utan ekki fengið á sig mark.

"Leikmenn hafa tekið vel á málum og brugðist rétt við mótlætinu. Á þessu stigi tímabilsins skiptir öllu máli að hala inn stig og vera nálægt toppnum um áramótin. Best væri auðvitað að vera á toppnum en að vera í baráttunni um áramót gefur okkur raunhæfan möguleika á að keppa um titilinn allt til enda," sagði Ferguson.

"Við erum búnir að vinna fimm leiki í röð og erum á réttri leið. Við höfum þurft að glíma við vandamál sem við erum vonandi að komast yfir. Það hafa allir lagt sig fram um að berjast og vonandi spilum við nógu góðan fótbolta til þess að vinna okkar leiki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×