Edison Cavani sýndi snilli sína í Napoli í kvöld þegar hann skoraði tvö mörk og tryggði Napoli gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Manchester City í næst síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Níu leikja sigurganga Manchester City liðsins er þar með á enda og tapið fór langt með að gera út um vonir liðsins um að komast í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar. Bayern München er komið áfram en Napoli hefur eins stigs forskot á City fyrir lokaumferðina.
Roberto Mancini og lærisveinar hans þurfa nú að treysta á það að vinna Bayern München í lokaleiknum og treysta jafnframt á það að Napoli nái ekki að vinna botnlið Villarreal sem hefur ekki fengið stig í riðlinum.
Edison Cavani kom Napoli í 1-0 á 17. mínútu með skalla á nærstöng eftir hornspyrnu Ezequiel Lavezzi. Cavani fékk annað gott færi skömmu síðar og Napoli-liðið var með góð tök á leiknum.
Mario Balotelli jafnaði leikinn á 33. mínútu með sínu níunda marki í síðustu tíu leikjum. Balotelli fylgdi þá á eftir skoti David Silva sem De Sanctis varði en markið kom eftir varnarmistök og nánast upp úr þurru.
Edinson Cavani kom Napoli í 2-1 á 49. mínútu eftir frábæra sókn og sendingu frá Andrea Dossena. Mancheester City pressaði mikið í lok leiksins en tókst ekki að skora jöfnunarmark sem hefði gjörbreytt stöðunni í riðlinum.
Fótbolti