Formúla 1

Enn einn sigurinn hjá Vettel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vettel í kappakstrinum í dag.
Vettel í kappakstrinum í dag. Nordic Photos / Getty Images
Þjóðverjinn Sebastian Vettel fagnaði í dag sigri í indverska kappakstrinum í Formúlu 1-mótaröðinni en hann var fyrir nokkru síðan búinn að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í ár.

Þetta var fyrsti Formúlu 1-kappaksturinn sem fór fram í Indlandi en Vettel, sem var fremstur á ráspól í ræsingunni, hafði forystu allan kappaksturinn og var sigurinn í raun aldrei í hættu.

Bretinn Jenson Button á McLaren varð annar en Fernando Alonso á Ferrari þriðji. Félagi Vettel hjá Red Bull, Ástralinn Mark Webber, varð fimmti en gamla kempan Michael Schumacher á Mercedes sjötti.

Vettel vann í dag sinn ellefta sigur á árinu og þann fimmta í síðustu sex keppnum. Hann hefur aðeins tvisvar lent neðar en öðru sæti - einu sinni í þriðja og einu sinni í fjórða. Hann er með 134 stiga forystu á næsta ökuþór, Button, og því haft ótrúlega yfirburði á árinu.

Tvær keppnir eru eftir á tímabilinu, í Abu Dhabi eftir tvær vikur og svo verður lokakeppnin í Brasilíu þann 27. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×