Fótbolti

Molde hársbreidd frá titlinum - Stefán skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær er þjálfari Molde.
Ole Gunnar Solskjær er þjálfari Molde. Nordic Photos / Getty Images
Molde er hársbreidd frá því að tryggja sér norska meistaratitlinn en liðið þarf að bíða eitthvað enn eftir 2-2 jafntefli við Strömsgodset í kvöld. Ole Gunnar Solskjær er þjálfari Molde.

Molde dugði sigur í kvöld til að tryggja sér titilinn en aðeins Rosenborg getur enn náð Molde að stigum. Rosenborg spilar síðar í kvöld við Brann og ef liðinu tekst ekki að vinna þann leik er Molde orðið meistari.

Að öðrum kosti dugar Molde eitt stig til viðbótar úr síðustu tveimur leikjum sínum til að tryggja sér titilinn.

Stefán Gíslason skoraði fyrir Lilleström í kvöld er liðið gerði 1-1 jafntefli við Álasund. Stefán Logi Magnússon stóð í marki Lilleström en Björn Bergmann Sigurðarson er frá vegna meiðsla.

Indriði Sigurðsson og Birkir Bjarnason voru báðir í byrjunarliði Viking sem gerði 1-1 jafntefli við Sarpsborg 08. Síðarnefnda liðið jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu í blálok leiksins.

Þá gerðu Sogndal og Stabæk markalaust jafntefli. Bjarni Ólafur Eiríksson og Pálmi Rafn Pálmason voru báðir í byrjunarliði Stabæk en Bjarni Ólafur var tekinn af velli í hálfleik. Gilles Mbang Ondo kom inn á í hans stað.

Haraldur Freyr Guðmundsson spilaði svo allan leikinn í vörn Start sem tapaði fyrir Odd Grenland á heimavelli, 3-1.

Stabæk, Viking, Lilleström eru um miðja deild en Start í næstneðsta sæti deildarinnar og í mikilli fallhættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×