Formúla 1

Mallya býst við glæstri Formúlu 1 hefð í Indlandi

Vijay Mallay og Bernie Ecclestone á mótssvæðinu nýja í Indlandi í dag.
Vijay Mallay og Bernie Ecclestone á mótssvæðinu nýja í Indlandi í dag. AP MYND: Luca Bruno
Fyrsta Formúlu 1 mót sögunnar í Indlandi fer fram á sunnudaginn og eitt keppnisliðið sem þar keppir var stofnað af indverskum aðila. Vijay Mallya stofnaði Formúlu 1 liðið Force India árið 2007, en nafn liðsins mætti þýða á íslensku sem Mátt Indlands. Force India liðið er með starfsaðstöðu við Silverstone brautina í Bretlandi og ökumenn liðsins eru Paul di Resta frá Skotlandi og Adrian Sutil frá Þýskalandi.

Í fréttatilkynningu frá Force India var Mallya spurður að því hve stoltur hann væri af því að Indlandi væri að halda Formúlu 1 mót í Indlandi.

„Ég hef verið í akstursíþróttum í 30 ár og þetta er ein af ástríðum mínum. Ég kom með fyrsta Formúlu 1 bílinn til Indlands á áttunda áratugnum og það var alltaf draumur minn að þetta frábæra land myndi halda mót. Þessi helgi er því mikilsvert augnablik og ég er mjög stoltur. Þetta er stórt skref framávið fyrir indverskar akstursíþróttir, fyrir íþróttir almennt og land okkar. Okkur hlakkar mikið til", sagði Mallya.

Hann gat þess að mótið væri mikilvægt fyrir lið sitt og liðsmenn þess myndu reyna að vera eins samkeppnisfærir og kostur er.

„Ég vil njóta hvers augnabliks og þetta verður án vafa eitt tilkomumesta mót tímabilsins og upphaf að glæstri Formúlu 1 hefð í Indlandi."

Mallya sagði mikinn áhuga á Formúlu 1 í Indlandi nú þegar og mótið myndi auka vinsældir íþróttarinnar. Hann hefur staðið fyrir leit að ökumanni framtíðarinnar í Indlandi, sem hófst fyrir átján mánuðum.

Haldin voru mót á kart-bílum í sjö borgum í Indlandi til að finna unga ökumenn, en tíu þeirra sem stóðu sig best voru síðan sendir á Silverstone brautina í Bretlandi í síðustu viku. Þar var skoðað enn frekar hvaða ökumanshæfileika þeir höfðu, hvernig líkamlegt ásigkomulag þeirra var og samskipti við fjölmiðla þjálfuð.

Mallya sagði að nokkrir frambærilegir ökumenn hefðu komið fram sem hann segir að lið sitt muni styðja við bakið á uppbyggilegan hátt, á meðan þeir byggja upp ferill sinn í akstursíþróttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×