Búlgarinn Dimitar Berbatov fékk sérstakar móttökur í Rúmeníu þrátt fyrir að hafa ekkert fengið að koma við sögu í 2-0 sigri Manchester United á Otelul Galati í Meistaradeildinni.
Meira en hundrað Búlgarir voru mættir til Búkarest til að reyna að sannfæra Berbatov um að gefa aftur kost á sér í búlgarska landsliðið sem er ekki að gera alltof góða hluti þessa dagana.
„Ég bjóst ekki við svona móttökum en ég get ekki spilað með landsliðinu ef ég fæ ekkert að spila með félagsliðinu," sagði Dimitar Berbatov augljóslega pirraður yfir takmörkuðum tækifærum hjá Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United.
Berbatov hætti í búlgarska landsliðinu í maí en hann hefur skorað 48 mörk í 79 landsleikjum.
„Ég vil þakka þessu góða fólki fyrir stuðninginn sem var mjög ánægjulegur. Liðsfélagarnir mínir hjá United vissu ekkert hvað var í gangi þannig að ég þurfti aðeins að útskýra þetta fyrir þeim," sagði Berbatov.
Berbatov er dottinn fyrir aftan Javier Hernandez og Danny Welbeck í goggunarröðinni á Old Trafford og hefur aðeins fengið að spreyta sig í samtals 116 mínútur í deild og Meistaradeild á þessu tímabili.
Fótbolti