Sport

Ein mætti ekki í úrslitin í spjótkasti kvenna - svekkelsi fyrir Ásdísi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Mynd/Stefán
Það voru bara ellefu stúlkur sem kepptu til úrslita í spjótkasti kvenna á HM í frjálsum í Daegu í Suður-Kóreu í dag því Þjóðverjinn Linda Stahl þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla. Ásdís Hjálmsdóttir endaði í þrettánda sæti í undankeppninni en tólf stúlkur komust í úrslitin. Ásdís var rúma 50 sentimetra frá því að komast í úrslitin.

Linda Stahl, sem varð Evrópumeistari í fyrra, kastaði 60,21 metra í undankeppninni og var þar með níunda besta árangurinn. Hún kastaði rúmum metra lengra en Ásdís (59,15 metra) sem náði sínu besta kasti á árinu í fyrstu tilraun.

Ásdís átti aldrei möguleika á því að koma í staðinn fyrir Lindu Stahl og því tóku bara ellefu konur þátt í úrslitum spjótkastsins. Þetta eykur aðeins á svekkelsið hjá Ásdísi sem hefur ekki kastað jafnvel á stórmóti áður og var svo nálægt því að komast í úrslitin.

Þetta var líka besti árangur íslenskrar konu í spjóti á Heimsmeistaramóti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×